Schengen-samstarfið

Árið 1985 var Schengen-samkomulagið undirritað, milli ríkisstjórna Þýskalands, Frakklands og Benelúxlandanna þriggja, nánar tiltekið Belgíu, Hollands og Lúxemborgar. Schengen-samstarfið dregur nafn sitt af litlum bæ í Lúxemborg sem liggur við bakka Móselárinnar, á landamærum Frakklands og Þýskalands, en þar var samkomulagið undirritað árið 1985. Ísland undirritaði samning um þátttöku í Schengen-samstarfinu í desember 1996, samhliða Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Schengen-samstarfið felst í grundvallaratriðum í tvennu. Annars vegar afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-landanna og hins vegar mótvægisaðgerðum, sem felst einkum í samvinnu evrópskra lögregluliða, til að tryggja öryggi borgara á Schengen-svæðinu. Með afnámi persónubundins eftirlits  á innri landamærum Schengen-ríkjanna er ætlað að greiða fyrir frjálsri för fólks innan Evrópusambandsins, en frjáls för fólks er einn liður í fjórfrelsi innri markaðar Evrópusambandsins sem Ísland gerðist aðili að með EES-samningnum.

Dagleg framkvæmd Schengen-samstarfsins á Íslandi er að mestu í höndum dómsmálaráðuneytisins, embættis ríkislögreglustjóra, lögregluumdæma landsins og Útlendingastofnunar. Hlutverk dómsmálaráðuneytisins lýtur aðallega að yfirumsjón með samstarfinu, samræmingu og eftirliti, auk innleiðingar nýrra gerða. Auk fyrrnefndra aðila koma utanríkisráðuneytið, Landhelgisgæsla Íslands, Persónuvernd og Þjóðskrá Íslands að ákveðnum verkefnum Schengen.

Frekari upplýsingar má finna í skýrslu innanríkisráðherra um kosti og galla Schengen-samstarfsins á eftirfarandi slóð:

Skýrsla innanríkisráðherra um Schengen-samstarfið (pdf-skjal júní 2012)

Nánari upplýsingar um Schengen samstarfið almennt er að finna á vef Stjórnarráðs Íslands.

Fjölmenningarsetur
Túlkun
Ísland
Stjórnsýsla
Fjármál
Atvinna
Fjölskylda
Húsnæði
Menntun
Heilsa
112
Bílar