Almenna reglan er sú að erlendur ríkisborgari þarf að hafa átt lögheimili á Íslandi í sjö ár áður en hann getur sótt um íslenskan ríkisborgararétt. 

Atriði sem hafa áhrif á búsetuleyfi
Umsækjandinn þarf að hafa átt fasta búsetu og hafa dvalist samfellt á landinu síðustu ár (löglega) áður en umsóknin er lögð fram. Hins vegar, ef um tímabundna atvinnu í öðru landi var um að ræða eða vegna óviðráðanlegra ástæðna svo sem vegna veikinda ættingja, er hægt að fá undanþágu frá því að hafa dvalist samfellt á landinu. Þannig geta þeir sem hafa verið í námi erlendis í allt að þrjú ár fengið undanþágu frá fyrrnefndu skilyrði.
 
Þeir sem fá undanþágu frá samfelldri dvöl þurfa hins vegar að hafa átt lögheimili á landinu í þann tíma sem búsetuskilyrðið kveður á um og þannig dregst sá tími frá sem dvalist var erlendis.

 

  1. Umsækjandi sanni með fullnægjandi hætti hver hann er
  2. Hann þarf að vera starfhæfur og vel kynntur (óflekkað mannorð) og staðfesti það með því að leggja fram álit frá tveimur íslenskum ríkisborgurum með óflekkað mannorð.
  3. Árangurslaust fjárnám má ekki hafa verið gert síðastliðin þrjú ár, bú hans má ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta og hann má ekki vera í vanskilum með skattgreiðslur.
  4. Umsækjandi þarf að geta framfleytt sér hérlendis og verður að sýna fram á það að hann hafi framfært sig með löglegum hætti hér á landi. Hann má ekki hafa þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi síðastliðin þrjú ár.
  5. Umsækjandi má ekki, hérlendis né erlendis, hafa verið sektaður eða hlotið fangelsisdóm, né eiga ólokið dómsmáli þar sem hann er grunaður um að hafa brotið íslensk lög. Frá þessu má víkja að liðnum ákveðnum tíma sem er tilgreindur í lögum og fer eftir eðli brotsins. Þannig ber að hafa í huga að ef einstaklingur fékk til dæmis umferðalagasekt hér á landi þá getur það haft í för með sér frestun á ríkisborgararétti. Umsækjendur ættu því að athuga það sérstaklega hvort slíkt hafi áhrif á umsókn þeirra áður en gjaldið fyrir umsóknina er greitt því það fæst ekki endurgreitt.
  6. Þann 1. janúar 2009 tók gildi ákvæði um að umsækjandi skuli hafa staðist próf í íslensku. Heimilt er að leggja inn umsókn um ríkisborgararétt áður en íslenskupróf er tekið en umsóknin verður þá ekki tekin til endanlegrar afgreiðslu fyrr en prófskírteini hefur borist. (Sjá 1. reglugerð um  próf í íslensku og 2. ákvæði um íslenskupróf fyrir umsækjendur) Nánari upplýsingar  um skráningu og prófstað má finna á vef Menntamálastofnunar.

Uppfærðar upplýsingar um allt varðandi íslenskan ríkisborgararétt má finna á vef Útlendingastofnunar.

Fjölmenningarsetur
Túlkun
Ísland
Stjórnsýsla
Fjármál
Atvinna
Fjölskylda
Húsnæði
Menntun
Heilsa
112
Bílar