Málefni fatlaðs fólks

Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016. Það þýðir að íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til að tryggja fötluðu fólki öll þau réttindi sem mælt er fyrir um í samningnum. Samningurinn fjallar um mannréttindi og segir að fatlað fólk eigi að njóta sömu réttinda og tækifæra og allir aðrir og fá til þess þann stuðning sem það þarf.

Á Íslandi eru tvö stjórnsýslustig, ríki og sveitarfélög. Sveitarfélögin bera ábyrgð á magvíslegri þjónustu við íbúa sína, s.s. leikskólum og grunnskólum og félagsþjónustu, þ.m.t. þjónustu og aðstoð við fatlað fólk og fjölskyldur þess. Einstaklingur telst vera íbúi í því sveitarfélagi þar sem lögheimili hans er.

Í lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, er mælt fyrir um að fatlað fólk skuli eiga rétt á fjölbreyttri þjónustu frá sveitarfélagi þar sem það býr sem á að koma til móts við tilteknar þarfir þess.