Húsnæði
Allir þurfa þak yfir höfuðið. Mjög mismunandi er hvernig fólk býr. Sumir leigja sér húsnæði, aðrir geta keypt sína eigin íbúð eða hús. Það er margt sem þarf að hafa í huga þegar kemur að húsnæði, hvernig á að finna stað til að búa á, húsaleigubætur, lögheimili, hvar á að fá þjónustu eins og síma og internet, rafmagn og annað.
Í þessum hluta er að finna hagnýtar upplýsingar varðandi húsnæði og tengd málefni.
Allir sem dvelja eða ætla að dvelja á Íslandi í hálft ár eða lengur þurfa samkvæmt lögum að hafa lögheimili á Íslandi.
Réttur til opinberrar þjónustu og aðstoðar er yfirleitt háður því að hafa skráð lögheimili. Því er mælt með því að þú skráir lögheimili þitt sem fyrst ef þú ætlar að dvelja á Íslandi.
Þegar leigja á íbúð eða hús er margt sem þarf að hafa í huga. Meira um það hér.
Allt íbúðarhúsnæði verður að hafa heitt og kalt vatn og rafmagn. Húsnæði á Íslandi er hitað með heitu vatni eða rafmagni.
Þegar flutt er inn í nýja íbúð eða hús er mikilvægt að lesa af mælum svo aðeins sé greitt fyrir það sem notað er. Sveitarfélög geta veitt upplýsingar um fyrirtæki sem selja og útvega rafmagn og heitt vatn á svæðinu.
Nokkur símafyrirtæki starfa á Íslandi og bjóða mismunandi verð og þjónustu fyrir síma- og netsamband. Best er að fara beint til símafyrirtækjanna til að fá upplýsingar um þá þjónustu og verð sem þau hafa upp á að bjóða.
Lestu meira um rafmagn og hita, síma og internet hér.
Íbúar í leiguhúsnæði geta átt rétt á húsnæðisbótum, óháð því hvort þeir eru að leigja félagslegt húsnæði eða á almennum markaði. Réttindi húsaleigubóta eru tekjutengd. Ef þú ert með lögheimili á Íslandi getur þú sótt um húsnæðisbætur.
Erlendir ríkisborgarar sem eiga lögheimili á Íslandi mega eiga íbúðarhúsnæði á Íslandi. Þeir geta sótt um lán hjá Íbúðalánasjóði til að kaupa íbúðarhúsnæði á sömu kjörum og íslenskir ríkisborgarar.
Vilji útlendingur halda áfram að eiga eignir á Íslandi eftir að hafa yfirgefið landið verður hann að sækja um leyfi til þess. Erlendir ríkisborgarar sem ekki hafa lögheimili á Íslandi geta sótt um leyfi til að kaupa íbúðarhúsnæði af Dómsmálaráðuneytinu.
