EnglishPolishIcelandic

Félagslegur stuðningur og þjónusta

Félagsþjónusta er þjónusta sem bæjaryfirvöld veita íbúum sínum, svo sem öldruðum og fötluðum.

 

Félagsþjónustan felur í sér hluti eins og að veita fólki gistingu eða fjárhagslegan stuðning þegar þess er þörf.

 

Erlendir ríkisborgarar sem þiggja fjárhagslegan stuðning gætu átt á hættu að dvalarleyfi þeirra verði ekki endurnýjað.

Sveitarfélögum er skylt að veita íbúum sínum nauðsynlegan stuðning til að tryggja að þeir lendi ekki í aðstæðum þar sem þeir geta ekki leyst úr eigin málum. Félagsmálanefndir og stjórnir sveitarfélaga sjá um félagsþjónustu og er einnig skylt að veita ráðgjöf í félagsmálum.

 

Einstaklingar ættu fyrst að leita til sveitarfélags ef þeir lenda í erfiðleikum og leita þangað áður en þeir sækja um annars staðar. Ef umsókn er hafnað er heimilt að kæra til kærunefndar félagsmála innan fjögurra vikna frá því að ákvörðunin var kynnt. Þeir sem ekki eiga rétt á fjárhagslegum stuðningi frá sveitarfélagi, geta leitað til annarra aðila eða samtaka.

 

Íbúi í sveitarfélaginu er hver sá sem hefur lögheimili í sveitarfélaginu, óháð því hvort hann er íslenskur eða erlendur ríkisborgari. Erlendir ríkisborgarar hafa sömu réttindi og íslenskir ​​ríkisborgarar hvað varðar félagsþjónustu (að því tilskildu að þeir eigi lögheimili í sveitarfélaginu). Allir sem dvelja eða ætla að dvelja á Íslandi í hálft ár eða lengur verða að hafa lögheimili á Íslandi.

 

Erlendir ríkisborgarar sem lenda í fjárhagslegum eða félagslegum erfiðleikum og eru ekki með lögheimili á Íslandi geta einnig leitað til viðkomandi sendiráðs eða ræðismanns. Hafa ber í huga að fjárhagslegur stuðningur bæjaryfirvalda getur haft áhrif á umsóknir um framlengingu dvalarleyfis, umsóknir um varanlegt dvalarleyfi og umsóknir um ríkisborgararétt.

Réttindi fatlaðra

Samkvæmt lögum eiga fatlaðir rétt á almennri þjónustu og aðstoð. Þeir skulu hafa jafnan rétt og njóta lífskjara sem eru sambærileg við það sem er hjá öðrum þegnum samfélagsins.

 

Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratryggingum Íslands sér um afgreiðslu á hjálpartækjum til fatlaðra einstaklinga og veitir ráðgjöf. Þegar keypt er hjálpartæki þarf heimild frá Sjúkratryggingum vegna greiðsluþátttöku.

 

Foreldrar fatlaðra barna og þeir sem veita börnum þjónustu geta fengið lánuð sérhæfð þroskaeflandi leikföng úr leikfangasöfnum sem svæðisskrifstofur halda úti. Skrifstofurnar veita einnig ýmsa aðra þjónustu og foreldraráðgjöf. Börn með fötlun og fjölskyldur þeirra geta leitað eftir þjónustu stuðningsfjölskyldna. Barn getur dvalið hjá stuðningsfjölskyldu tvo til þrjá sólarhringa í mánuði. Svæðisskrifstofur fyrir fatlaða veita frekari upplýsingar um hvernig á að gerast stuðningsfjölskylda eða fá þjónustu stuðningsfjölskyldu.

 

Boðið er upp á sumardvöl fyrir fötluð börn á nokkrum stöðum á landinu, ýmist á vegum sveitarfélaga, félagasamtaka eða einstaklinga.

 

Fatlaðir geta sótt um bílastæðakort sem gerir þeim kleift að leggja ökutækjum í bílastæðum sem eru sérstaklega ætluð fötluðum. Umsóknir um slík kort eru afgreiddar af lögreglustjórum og sýslumönnum.

 

Í flestum sveitarfélögum er rekin ferðaþjónusta fyrir fatlaða. Panta þarf þjónustu með fyrirvara og misjafnt er eftir sveitarfélögum hvaða reglur gilda til að mynda um fjölda ferða og hvort og hvað er greitt fyrir þjónustuna.
Fatlað fólk og fólk með hreyfihömlun sem ferðast með flugi eiga vissan rétt á endurgjaldslausri aðstoð við að komast ferða sinna um flughafnir og á sérstökum aðbúnaði á flugi.

 

Öryrkjum er boðin félagsleg heimaþjónusta og félagsleg aðstoð af stærri sveitarfélögunum.


Í sumum sveitarfélögum er boðið upp á íþrótta- og tómstundastarf og annars konar afþreyingu fyrir fatlaða.

Öryggisstillingar
Við notum kökur til að bæta upplifun þína meðan þú notar vefsíðu okkar. Ef þú ert að nota þjónustu okkar í gegnum vafra geturðu takmarkað, lokað á eða fjarlægt smákökur í gegnum stillingar vafrans þíns. Við notum einnig efni og forskriftir frá þriðja aðila sem kunna að nota rakningartækni. Þú getur veitt samþykki þitt hér að neðan til að leyfa slíkan þriðja aðila. Fyrir frekari upplýsingar um vafrakökur sem við notum, gögn sem við söfnum og hvernig við vinnum úr þeim, vinsamlegast athugaðu Friðhelgisstefna