Fjölskyldugerðir
Kjarnafjölskylda samanstendur af barni eða börnum og kynforeldrum þeirra.
Einstætt foreldri er karl eða kona sem býr ein með barn sitt eða börn. Skilnaður er algengur á Íslandi sem og barneignir foreldra sem ekki eru giftir eða í sambúð.
Þetta þýðir að fjölskyldur sem samanstanda af einu foreldri og barni, eða börnum eru algengar á Íslandi.
Foreldrar sem sjá um börn sín einir eiga rétt á meðlagi frá hinu foreldrinu, fá hærri barnabætur og greiða lægri dagvistunargjöld en sambúðarfólk.
Stjúpfjölskyldur samanstanda af barni eða börnum, einu kynforeldri og einu stjúpforeldri / sambýlisforeldri sem tekur að sér foreldrahlutverk. Líffræðilegt foreldri og stjúpforeldri eiga oft hvort sitt barn annars staðar, sem þýðir að börnin eiga stjúpsystkini. Þegar foreldrar eiga börn saman getur fjölskyldan tekið á sig mjög fjölbreytta mynd.
Í tilfellum fósturfjölskyldna, tekur fólk til sín börn sem eru ekki þeirra eigin í ákveðinn tíma.
Ættleiðingarfjölskyldur eru fjölskyldur með barn eða börn sem hafa verið ættleidd.
Samkynhneigðir sem eru í hjónabandi eða í skráðri sambúð geta ættleitt börn eða eignast börn með tæknifrjóvgun, með þeim venjulegu skilyrðum sem gilda um ættleiðingu barna og hafa sömu réttindi og aðrir foreldrar ef þeir eiga börn fyrir.

Ofbeldi
Ofbeldi innan fjölskyldunnar er bannað samkvæmt lögum. Það er bannað að beita maka eða börn ofbeldi, hvort sem það er andlegt eða líkamlegt.
Heimilisofbeldi skal tilkynna til lögreglu. Ef ofbeldi er beint að börnum á að tilkynna það til Barnaverndarstofu eða hafa samband við lögreglu í gegnum 112.
Við höfum öll mannréttindi: Jafnrétti
Eins og mælt er fyrir um í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningum og landslögum, ættu allir að njóta mannréttinda og frelsis frá mismunun. Jafnrétti þýðir að allir eru jafnir og enginn greinarmunur gerður á grundvelli kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórnmála eða annarra skoðana, þjóðlegs eða félagslegs uppruna, eignastöðu, fæðingarstaðar eða annarrar stöðu.
Þetta myndband fjallar um jafnrétti á Íslandi og skoðar sögu, löggjöf og reynslu fólks sem hefur hlotið alþjóðlega vernd á Íslandi.
Gert af Amnesty International á Íslandi og Mannréttindamiðstöð Íslands. Fleiri myndbönd má finna hér.