Dvalarleyfi fyrir foreldra 67 ára og eldri

Dvalarleyfið er veitt á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Dvalarleyfið er veitt einstaklingi 67 ára eða eldri, eigi viðkomandi uppkomið barn hér á landi og sé ætlunin að flytjast til landsins. Skilyrði er að barn viðkomandi sé íslenskur eða norrænn ríkisborgari, eða erlendur ríkisborgari með ótímabundið dvalarleyfi eða með tímabundið dvalarleyfi á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, fyrir íþróttafólk, á grundvelli hjúskapar eða sambúðar, alþjóðlegrar verndar, mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið.

Þú gætir átt rétt á dvalarleyfi sem foreldri ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt, ásamt fleirum:

 • þú ert 67 ára eða eldri og átt uppkomið barn hér á landi,
 • barnið sem er búsett hér á landi er íslenskur eða norrænn ríkisborgari, eða erlendur ríkisborgari með ótímabundið dvalarleyfi eða erlendur ríkisborgari sem dvelst hér á grundvelli dvalarleyfis sem talið er upp hér að ofan, 
 • getur sýnt fram á að þú getir framfleytt þér á dvalartíma,
 • ert sjúkratryggð(ur) hjá íslensku tryggingafélagi (undir liðnum vátryggingafélög) eða erlendu tryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Íslandi (undir liðnum erlend vátryggingafélög),
 • hefur ekki afplánað refsingu erlendis á síðustu 5 árum eða verið dæmd(ur) til lengri refsingar en sem samsvarar 3 mánaða fangelsi samkvæmt íslenskum lögum,
 • fjölskyldumeðlimur þinn hér á landi hefur ekki á síðustu 5 árum hlotið dóm eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum (nema undanþága eigi við),
 • átt vegabréf þar sem gildistími er minnst 90 dagar umfram áætlaðan gildistíma dvalarleyfis, og
 • samþykki fjölskyldumeðlims hér á landi fyrir útgáfu leyfis liggur fyrir.

 

Þú mátt ekki

 • byrja að vinna fyrr en dvalar- og atvinnuleyfi hefur verið veitt,
 • vinna fyrir annan atvinnurekanda en þann sem atvinnuleyfið var veitt til,
 • vera lengur frá landinu en 90 daga á hverju 12 mánaða tímabili á meðan leyfið er í gildi, annars getur dvalarleyfið verið fellt niður eða afturkallað.

 

Umsókn um dvalarleyfi og atvinnuleyfi (ef við á) og önnur fylgigögn skulu lögð fram hjá Útlendingastofnun eða sýslumönnum utan höfuðborgarsvæðisins.

Umsækjandi sem ekki er áritunarskyldur má vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram og þegar hún er til vinnslu, svo lengi sem dvöl á Schengen-svæðinu fer ekki yfir 90 daga á sl. 180 daga tímabili. Umsækjandi sem er áritunarskyldur má ekki vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram. Slíkri umsókn verður synjað. 

Ef umsækjandi uppfyllir ekki þessi skilyrði og þau skilyrði sem fjallað er um neðar verður dvalarleyfi synjað og umsækjandi þarf að yfirgefa landið. Yfirgefi umsækjandi ekki landið getur það leitt til brottvísunar og endurkomubanns. Endurkomubann felur í sér bann við endurkomu á Schengen-svæðið um ákveðinn tíma eða að lágmarki 2 ár.

Það er á ábyrgð umsækjanda að sækja um endurnýjun dvalarleyfis a.m.k. 4 vikum áður en gildistími leyfis rennur út. Sé það gert er umsækjanda heimilt að dvelja á Íslandi á meðan umsókn um endurnýjun er til vinnslu hjá Útlendingastofnun. Sé ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis áður en gildistími rennur út verður farið með umsókn eins og um fyrsta leyfi sé að ræða en ekki endurnýjun. Umsókn sem berst eftir að gildistími eldra leyfis er útrunninn verður synjað ef umsækjandi hefur ekki heimild til að dvelja á landinu meðan umsókn er til vinnslu. 

Nánari upplýsingar er að finna á vef Útlendingastofnunnar

Fjölmenningarsetur
Túlkun
Ísland
Stjórnsýsla
Fjármál
Atvinna
Fjölskylda
Húsnæði
Menntun
Heilsa
112
Bílar