Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016. Það þýðir að íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til að tryggja fötluðu fólki öll þau réttindi sem mælt er fyrir um í samningnum.

Samningurinn fjallar um mannréttindi og segir að fatlað fólk eigi að njóta sömu réttinda og tækifæra og allir aðrir og fá til þess þann stuðning sem það þarf. Til dæmis eiga fatlaðir rétt á menntun, atvinnu og fjölskyldulífi eins og aðrir. Breyta þarf samfélaginu svo fatlað fólk sé ekki útilokað frá tækifærum og réttindum.

Með breyttu viðhorfi til fötlunar sem eðlilegs hluta af mannlegri tilveru og betra aðgengi á öllum sviðum á fatlað fólk auðveldara með að vera virkir þátttakendur í samfélagi til jafns við aðra og njóta sömu réttinda.

Til þess að ryðja hindrunum úr vegi er mjög mikilvægt að hafa samráð við fatlað fólk. Fatlað fólk og hagsmunasamtök þess eiga að fá tækifæri til að vinna með þeim sem móta stefnu og setja lög og reglugerðir sem hafa áhrif á líf fatlaðs fólks.

Grundvallaratriði samningsins eru:

 • Virðing fyrir mannlegri reisn, sjálfræði og sjálfstæði allra einstaklinga.
 • Bann við mismunun á grundvelli fötlunar.
 • Virðing fyrir fjölbreytileika og mannlegum margbreytileika.
 • Jöfn tækifæri – til dæmis til menntunar, atvinnu, fjölskyldulífs og sjálfstæðrar búsetu.
 • Aðgengi fyrir alla.
 • Jafnrétti á milli karla og kvenna.
 • Samráð við fatlað fólk.
 • Fræðsla og kynning á samningnum.
 • Stuðningur og breytingar á samfélagi til að allir getið notið jafnra tækifæra.

Í samningnum er fjallað um skyldur stjórnvalda til að tryggja að fatlað fólk njóti viðeigandi aðlögunar, þ.e. að tekið sé tillit til einstaklingsbundinna þarfa fatlaðs fólks til að tryggt verði að það njóti réttinda og tækifæra til jafns við annað fólk á öllum sviðum. Það þýðir að fatlað fólk á rétt á því að gerðar séu sérstakar breytingar til að aðstoða það vegna fötlunar þess.

Hér má sjá myndband um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á ensku.

Hér má lesa samninginn.

AUÐLESIÐ

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks:

Sameinuðu þjóðirnar vilja frelsi og jafnrétti fyrir alla. Þær vilja að réttindi allra séu virt og allir njóti sömu virðingar um allan heim.

Sameinuðu þjóðirnar hafa búið til samning sem heitir samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hann segir að fatlað fólk eigi að hafa sama rétt og sömu tækifæri og allir aðrir og fá stuðning.

Mörg lönd hafa lofað að fylgja þessum samningi og Ísland sagðist ætla að gera það árið 2016. 

Samningurinn segir að fatlað fólk eigi rétt á menntun, atvinnu og fjölskyldulífi eins og aðrir.

Breyta þarf samfélaginu svo fatlað fólk sé ekki útilokað frá tækifærum og réttindum.

Þegar fatlað fólk fær réttindi sín og samfélagið hugsar um fatlað fólk sem dýrmætan hluta af samfélaginu verður auðveldara fyrir fatlað fólk að taka virkan þátt í samfélaginu og njóta réttinda sinna.

Það á að hafa samráð við fatlað fólk. Það þýðir að hlusta á og taka tillit til þess hvað fötluðu fólki finnst um mál sem snerta þau.

Fatlað fólk og hagsmuna-samtök fatlaðs fólks eiga að fá tækifæri til að vinna með stjórnvöldum og þeim sem setja lög og reglugerðir sem hafa áhrif á líf fatlaðs fólks. 

Megin atriðin í samningnum eru:

 • Það á að bera virðingu fyrir mannlegri reisn, sjálfræði og sjálfstæði alls fólks.
 • Það er bannað að mismuna vegna fötlunar.
 • Það á að bera virðingu fyrir fjölbreytileika og mannlegum margbreytileika. 
 • Jöfn tækifæri – til dæmis til menntunar, atvinnu, fjölskyldulífs og sjálfstæðrar búsetu. 
 • Aðgengi fyrir alla.
 • Jafnrétti fyrir alla.
 • Samráð við fatlað fólk. Það þýðir að hlusta á fatlað fólk og taka tillit til skoðana þeirra.
 • Fræðsla og kynning á samningnum.
 • Stuðningur og breytingar á samfélagi til að allir getið notið jafnra tækifæra. 

Í samningnum er sagt frá því sem stjórnvöld eiga að gera til að fatlað fólk geti fengið viðeigandi aðlög. Það þýðir að það á að taka til þarfa sem fötluð manneskja hefur til þess að hún geti notið tækifæra og réttinda eins og aðrir. Stundum höfum við þörf fyrir aðstoð eða stuðning og þá á sérstaklega að mæta þeim þörfum okkar.

Hér má sjá myndband um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á ensku.