Þroskahjálp og aðildarfélög

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum.

Um 20 félög eiga aðild að samtökunum og eru þau foreldra- og styrktarfélög, svo og fagfélög fólks sem hefur sérhæft sig í þjálfun og þjónustu við fatlað fólk. Félögin eru starfrækt um allt land og eru félagsmenn þeirra u.þ.b. sex þúsund.

Þá eiga samtökin einnig aðild að evrópskum og alþjóðlegum samstarfsnetum sem hafa það að markmiði að vinna að mannréttindum fatlaðs fólks þvert á landamæri.

 

Réttindabarátta

Landssamtökin Þroskahjálp hafa allt frá stofnun samtakanna lagt höfuðáherslu á að mannréttindi og  málefni fatlaðs fólks séu málefni samfélagsins alls og að mikilvægt sé að hafa samráð við fatlað fólk sem gegnir mikilvægu ráðgjafahlutverki í starfi Þroskahjálpar.

Í fjölbreyttu samfélagi eiga allir að njóta réttinda og tækifæra. Grundvallaratriði er að fatlað fólk njóti sama réttar og allir aðrir, og fái til þess þann stuðning sem nauðsynlegur er til að geta lifað sjálfstæðu og innihaldsríku lífi sem fullir þátttakendur í samfélagi. Nánar er fjallað um þessi réttindi og forsendur þeirra í kaflanum um Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Samtökin eiga mikið og margvíslegt samstarf við hlutaðeigandi stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga varðandi ýmis réttinda- og hagsmunamál fatlaðs fólks og berjast fyrir rétti þess. Þannig er leitast við að hafa mótandi áhrif á allar aðgerðir, sem stjórnvöld hafa forystu um, með það að leiðarljósi að fatlað fólk njóti í hvívetna sama réttar og sömu aðstöðu og aðrir landsmenn. Þetta gildir um alla þá sem hafa fasta búsetu á Íslandi óháð uppruna, tungumálakunnáttu eða tegund dvalar- eða búsetuleyfis.

Íslenskt samfélag á enn talsvert í land með að tryggja fötluðu fólki viðunandi þjónustu og stuðning og jafnrétti í raun, eins og skylt er að gera samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja á öllum sviðum samfélagsins. Þess vegna er starfsemi Þroskahjálpar jafnmikilvæg í dag og þegar samtökin voru stofnuð árið 1976.

Vantar þig nánari upplýsingar um starf Þroskahjálpar?

Ef spurningar vakna má hafa samband við Þroskahjálp með því að senda fyrirspurn á netfangið throskahjalp@throskahjalp.is  Einnig má panta samtal, ýmist í síma aða á skrifstofu samtakanna, sem getur farið fram með aðstoð símatúlks.

Vefsíða: https://www.throskahjalp.is/  

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

AUÐLESIÐ

Þroskahjálp og aðildarfélög

Landssamtökin Þroskahjálp vinna fyrir fatlað fólk og vilja passa upp á að fatlað fólk fái réttindi sín. Þroskahjálp leggur sérstaklega áherslu á að hjálpa fólki með þroskahömlun og líka á öll fötluð börn og ungmenni.

Þroskahjálp notar samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til að vinna eftir. Þau nota líka Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Það eru 20 félög sem eru meðlimir i Þroskahjálp. Þetta eru félög fólks sem hefur fötlun, félög fólks sem eiga fatlaðan fjölskyldumeðlim og líka fólk sem vinnur með og fyrir fatlað fólk. 

Þessi félög eru starfandi út um allt land og eru 6 þúsund manns sem eru í félögunum. 

Þroskahjálp vinnur líka með félögum í útlöndum sem eru líka að berjast fyrir réttindum fatlaðs fólks.

 

Réttindabarátta

Þroskahjálp hefur alltaf lagt mesta áherslu á mannréttindi.

Þroskahjálp vill að samfélagið allt hugsi um réttindi fatlaðs fólks.

Fatlað fólk á að vera með í allri vinnu um mál sem snúast um fatlað fólk og það á alltaf að spyrja fatlað fólk hvað því finnst.

Samfélagið er fjölbreytt og allir eiga að njóta réttinda og hafa tækifæri. 

Fatlað fólk á að njóta sömu réttinda og annað fólk. Það á að fá stuðning til að lifa sjálfstæðu og góðu lífi. 

Þroskahjálp vinnur mikið með stjórnvöldum, það eru ríki og sveitarfélög. Þroskahjálp er alltaf að fylgjast með og þrýsta á að stjórnvöld séu að veita fötluðu fólki þau réttindi og þjónustu sem þau eiga að fá. Þau reyna að þrýsta á að fatlað fólk fái sömu réttindi og tækifæri og aðrir sem búa á Íslandi.

Ísland hefur sagst ætla að fylgja samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og það er margt sem stendur þar sem Ísland þarf að gera betur. Fatlað fólk fær ekki enn þá viðunandi þjónustu og stuðning til að það geti kallast fullt jafnrétti.

Samtökin eru þess vegna jafn mikilvæg i dag og þau voru árið 1976 þegar þau voru stofnuð. Það þarf að halda áfram að berjast fyrir réttindum fatlaðs fólks.

Viltu meiri upplýsingar um starf Þroskahjálpar? 

Þú mátt alltaf hafa samband við Þroskahjálp með því að senda fyrirspurn á netfangið throskahjalp@throskahjalp.is eða hringja í síma 588 9390. 

Það er líka hægt að panta samtal við starfsfólk og þú getur fengið símatúlk.

Vefsíða: https://www.throskahjalp.is/