Þjónusta við fatlað fólk, börn og fullorðna

Á íslandi eru tvö stjórnsýslustig, ríki og sveitarfélög. Sveitarfélögin bera ábyrgð á magvíslegri þjónustu við íbúa sína, s.s. leikskólum og grunnskólum og félagsþjónustu, þ.m.t. þjónustu og aðstoð við fatlað fólk og fjölskyldur þess. Einstaklingur telst vera íbúi í því sveitarfélagi þar sem lögheimili hans er.

Í lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, er mælt fyrir um að fatlað fólk skuli eiga rétt á fjölbreyttri þjónustu frá sveitarfélagi þar sem það býr sem á að koma til móts við tilteknar þarfir þess.

Í lögunum er m.a. fjallað um:

 • Húsnæðismál fatlaðs fólks. Rétt til stuðnings til að fá viðeigandi búsetu.
 • Notendasamninga og notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).
 • Rétt til að fá einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir.
 • Þjónustuteymi þegar fatlað barn þarf sérhæfða og mikla þjónustu margra þjónustukerfa, svo sem félagsþjónustu, barnaverndar, heilbrigðisþjónustu og sérfræðiþjónustu skóla.
 • Ýmis konar þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra.
 • Skammtímadvöl. Fötluð börn og ungmenni eiga rétt á skammtímadvöl utan heimilis þegar þörf krefur. Foreldrar barns sem á rétt á skammtímadvöl geta fengið stuðning inn á heimili sitt í stað dvalar barns utan heimilis, óski foreldrar þess.
 • Sumardvöl. Fötluð börn skulu eiga kost á að komast í sumardvöl að heiman eins og önnur börn.
 • Frístundaþjónusta við fatlaða nemendur.
 • Úrræði fyrir börn með miklar samþættar geð- og þroskaraskanir.
 • Atvinnumál fatlaðs fólks.
 • Starfsfólk og stjórnendur í þjónustu við fatlað fólk.
 • Ákvörðun um hvernig þjónusta við fatlaðan einstakling er skal byggjast á einstaklingsbundnu mati og þörf fyrir þjónustu og skal tekin í samráði við hinn fatlaða einstakling.
 • Frumkvæðisskylda sveitarfélags til að upplýsa einstakling um hvaða þjónustu hann eigi rétt á.
 • Úrræði á meðan beðið er eftir að þjónusta hefjist sem hefur verið samþykkt að fatlaður einstaklingur fái.
 • Sveitarfélag á að rökstyðja skriflega þegar umsókn um þjónustu er hafnað að fullu eða að hluta.

Sveitarfélagi er skylt samkvæmt lögum að veita fötluðu fólki og aðstandendum þess leiðbeiningar og upplýsingar um öll þau réttindi sem það hefur til að fá þjónustu og stuðning. Lögin má lesa hér.

Ef fólk telur sig ekki fá nægilegar leiðbeiningar og upplýsingar frá sveitarfélagi varðandi þjónustu fyrir fatlað fólk eða ef það telur sig ekki fá nægilega þjónustu og aðstoð sem það þarf á að halda getur það leitað til réttindagæslu félagsmálaráðuneytisins eða Sjónarhóls þegar um fötluð börn er að ræða.

Nánari upplýsingar um réttindagæslu félagsmálaráðuneytisins má nálgast hér og Sjónarhól hér.

AUÐLESIÐ

Þjónusta við fatlað fólk, börn og fullorðna

Lögin segja að fatlað fólk eigi rétt á ýmiskonar þjónustu frá sveitarfélögum og ríki sem eiga að mæta þörfum þeirra.

Dæmi um það sem fatlað fólk á rétt á:

 • Stuðningur til að fá viðeigandi búsetu.
 • Notendasamninga og notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).
 • Einstaklingsbundna þjónustuáætlun, það þýðir áætlun fyrir þjónustuna sem er gerð bara fyrir þig og á að segja frá allri þjónustu og þörfum sem þú hefur. 
 • Þjónustuteymi fyrir fötluð börn sem þurfa sérhæfða og mikla þjónustu frá mörgum kerfum. Til dæmis frá félagsþjónustu, barnaverndar, heilbrigðisþjónustu og sérfræðiþjónustu frá skóla. 
 • Fjölbreytt þjónusta við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. 
 • Skammtímadvöl. Fötluð börn og ungmenni eiga rétt á skammtímadvöl utan heimilis. Ef foreldrar vilja frekar stuðning inn á heimili sitt, í stað þess að barnið fari í skammtímadvöl er það hægt. 
 • Sumardvöl. Fötluð börn eiga að komast í sumardvöl að heiman eins og önnur börn. 
 • Frístundaþjónusta við fatlaða nemendur.
 • Úrræði fyrir börn með miklar samþættar geð- og þroskaraskanir.
 • Stuðning við atvinnu. 
 • Starfsfólk og stjórnendur í þjónustu við fatlað fólk. 
 • Það á að nota einstaklingsbundið mat um hvernig þjónusta við fatlaðan einstakling er og hverjar þarfir hans eru. Það á alltaf að vera samráð við fatlað fólk. 
 • Frumkvæðisskylda. Það þýðir að sveitarfélag á að láta fatlað fólk vita hvaða þjónustu það á rétt á.
 • Á meðan beðið er eftir að þjónusta byrji á maður rétt á að fá aðra þjónustu á meðan. 
 • Sveitarfélag á að skrifa rökstuðning þegar þau hafna því að bjóða upp á þjónustu, sama hvort maður fær ekki þjónustuna eða maður fær hluta af þjónustunni.
 •  Sveitarfélagi á að veita fötluðu fólki og aðstandendum leiðbeiningar og upplýsingar um öll réttindi sem það hefur til að fá þjónustu og stuðning. 

Það er hægt að fá aðstoð frá mörgum aðilum ef:

 • Fólki finnst það ekki fá nógu miklar leiðbeiningar og upplýsingar frá sveitarfélagi vegna þjónustu fyrir fatlað fólk.
 • Fólki finnst finnst þjónustan og aðstoðin sem það fær ekki duga sér eða að hún sé ekki nógu góð.
 • Það eru til dæmis réttindagæsla fatlaðs fólks og Sjónarhóll.

Þú getur skoðað upplýsingar um það hér:

Sjónarhóll

Réttindagæsla