Vilt þú taka þátt í félagsstarfi og réttindabaráttu fólks með þroskahömlun?

Átak, félag fólks með þroskahömlun

Átak, félag fólks með þroskahömlun, var stofnað árið 1993. Félagið er byggt á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks. Í Átaki eru um 150 félagsmenn frá öllum landshlutum. Í stjórn Átaks sitja sex manns auk tveggja meðstjórnenda. Öllum er velkomið að gerast félagsmenn í Átaki en einungis fólk með þroskahömlun getur setið í stjórn Átaks. Hlutverk félagsins er að standa vörð um réttindi og hagsmuni fólks með þroskahömlun. Átak berst fyrir því að fólk með þroskahömlun fái að tala fyrir sig og sínum hagsmunamálum sjálft og fái rými og aðstoð til að gera það.

Talsmenn félagsins tala á ráðstefnum og fundum bæði innan lands og erlendis um ýmis málefni sem snúa að fólki með þroskahömlun. Félagið heldur einnig almenna félagsfundi í hverjum mánuði. Á þeim fundum er í boði einhvers konar fræðsla, umræða eða skemmtun. Félagið vill að einstaklingar með þroskahömlun eigi kost á því að búa í sjálfstæðri búsetu, fái tækifæri til menntunar og að starfa á almennum vinnumarkaði og eigi sama rétt til fjölskyldulífs og barneigna og annað fólk.  

Átak er til húsa á Háaleitisbraut 13 í Reykjavík og sendir út fréttir og tilkynningar  um starfsemi félagsins í gegnum  heimasíðu sína www.lesa.is og í gegnum facebook síðu félagsins.

Átak vill endilega heyra frá öllum sem eru í félaginu og býður alla velkomna í félagið.

 

Ungmennaráð Þroskahjálpar – fyrir 16 til 24 ára

Ungmennaráð Þroskahjálpar var stofnað í janúar 2020 og er vettvangur fyrir ungt fólk með þroskahömlun til að láta rödd sína heyrast og taka þátt í að hafa áhrif á lög, reglur og ákvarðanir sem varða líf þeirra og tilveru. Ungmennaráðið fundar einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Fundirnir eru blanda af félagslífi, tengslamyndun, fræðslu og leiðsögn til að styrkja og efla ungt fólk með þroskahömlun til að tala sjálft sínu máli og koma skoðunum sínum á framfæri. Allt ungt fólk með þroskahömlun á aldrinum 16 – 24 ára er velkomið í ungmennaráðið og þeir sem þurfa aðstoð til að vera virkir þátttakendur fá þá aðstoð sem þeir þurfa.

Vilt þú vera með í ungmennaráði Þroskahjálpar? Sendu póst á throskahjalp@throskahjalp.is eða hringdu síma 588 9390.

 

Grasrótarhópur

Hópur sem hittist reglulega til að ræða málefni fólks með þroskahömlun.  Markmiðið er að varpa ljósi á þau málefni sem brenna helst á fólki með þroskahömlun. Einnig er unnið að því að þjálfa fólk í að vera talsmenn fyrir ákveðin málefni til að geta komið fram fyrir hönd hópsins t.d. í fjölmiðlum eða annarsstaðar. Í hópnum er eingöngu fólk með þroskahömlun og eru allir velkomnir í hann óháð félagaaðild. Starfsfólk á vegum Átaks og Þroskahjálpar eru stuðningsaðilar hópsins.

AUÐLESIÐ

Félög fólks með þroskahömlun

 

Átak, félag fólks með þroskahömlun 

Átak er félag fyrir fólk með þroskahömlun. Félagið vinnur eftir hugmyndum um sjálfstætt líf og að fatlað fólk hafi sjálfsákvörðunarrétt, það er rétturinn til að ráða sér sjálfur.

Í Átaki eru 150 meðlimir um allt land. 

Í stjórn Átaks eru 6 manns og 2 meðstjórnendur. 

Öllum er velkomið að vera með í Átaki en bara fólk með þroskahömlun má vera í stjórn Átaks. 

Hlutverk félagsins: 

Passa upp á að réttindi og hagsmuni fólks með þroskahömlun.

Að berjast fyrir því að fólk með þroskahömlun fái að tala fyrir sig og sínum málum sjálft. Það á að fá rými og aðstoð til að gera það. 

Talsmenn Átaks tala á ráðstefnum og fundum bæði á Íslandi og í útlöndum um ýmis mál sem snúast um fólk með þroskahömlun.

Átak heldur fundi í hverjum mánuði. Þá er í boði fræðsla, umræða eða skemmtun. 

 

 Átak vill að einstaklingar með þroskahömlun:

  • geti valið að búa í sjálfstæðri búsetu
  • fái tækifæri til að mennta sig
  • fái tækifæri til að vinna á almennum vinnumarkaði
  • eigi sama rétt til fjölskyldulífs og að eignast börn eins og annað fólk

 

Átak vill endilega heyra frá öllum sem eru í félaginu og býður alla velkomna í félagið.

Heimasíða Átaks: http://www.lesa.is/ 

Facebooksíða Átaks: https://www.facebook.com/atakfelagfolks/

 

Ungmennaráð Þroskahjálpar – fyrir 16 til 24 ára:

 

Ungmennaráð Þroskahjálpar var stofnað í janúar árið 2020.

Ungmennaráð er hópur þar sem ungt fólk með þroskahömlun lætur rödd sína heyrast og spjallar um mál sem snerta þau.

Ungmennaráðið fundar einu sinni í mánuði á veturna. 

Fundirnir eru blanda af félagslífi, vináttu, fræðslu og leiðsögn til að styrkja og efla ungt fólk með þroskahömlun til að láta skoðanir sínar heyrast og vera sínir eigin talsmenn. 

Allt ungt fólk með þroskahömlun á aldrinum 16 – 24 ára er velkomið í ungmennaráðið og þeir sem þurfa aðstoð til að vera virkir þátttakendur fá þá aðstoð sem þeir þurfa. 

Vilt þú vera með í ungmennaráði Þroskahjálpar?

Hafðu þá samband við annalara@throskahjalp.is eða hringdu í Önnu Láru í síma 896 7870.

 

 Grasrótarhópur :

Grasrótarhópurinn er hópur sem hittist reglulega til að ræða málefni fólks með þroskahömlun.  

Þau ræða má sem brenna á fólki með þroskahömlun. 

Einnig er unnið að því að efla fólk til að vera eigin talsmenn til að geta komið fram fyrir hönd hópsins t.d. í fjölmiðlum eða annarsstaðar.

Í hópnum er eingöngu fólk með þroskahömlun og eru allir velkomnir í hann sama í hvaða félögum þau eru. 

Starfsfólk á Átaks og Þroskahjálpar eru stuðningsaðilar hópsins.