Persónuvernd

Eitt meginmarkmið laga nr. 90/2018, um persónuvernd, er að veita einstaklingum betri vernd og færa þeim aukinn ákvörðunarrétt yfir persónuupplýsingum sínum í þeim tilgangi að fela þeim stjórn yfir því hver vinnur upplýsingar um þá, hvenær og í hvaða tilgangi.

Viðkvæmar persónuupplýsingar, sem skylt er að fara sérstaklega varlega með, eru m.a.:

  • Heilsufarsupplýsingar, þ.e. persónuupplýsingar sem varða líkamlegt eða andlegt heilbrigði einstaklings, þ.m.t. heilbrigðisþjónustu sem hann hefur fengið.
  • Erfðafræðilegar upplýsingar, þ.e. persónuupplýsingar sem varða arfgenga eða áunna erfðaeiginleika einstaklings.

Persónuvernd hefur eftirlit með því að farið sé að lögum og öðrum reglum um vinnslu persónuupplýsinga og að bætt sé úr annmörkum og mistökum.

Ef ástæða er til að ætla að ekki sé farið að lögum og reglum um vernd persónuupplýsinga varðandi fatlaðan einstakling, fullorðinn eða barn, er hægt að leita til Persónuverndar eftir upplýsingum og leiðbeiningum og/eða til að kæra mál.

Persónuvernd, Rauðarárstíg 10, 105 Reykjavík

Sími 510 9600

Netfang: postur@personuvernd.is

Vefsíða: https://www.personuvernd.is/

AUÐLESIÐ

Persónuvernd

Persónuvernd fylgist með því að farið sé vel með upplýsingar um fólk. Fólk á sjálft að fá að ráða hvernig upplýsingar um það eru geymdar og fleira.

Viðkvæmar persónu-upplýsingar sem þarf að fara sérstaklega varlega með eru:

  • Heilsufars-upplýsingar: það eru upplýsingar um heilsu okkar, bæði líkamlega heilsu og líka andlega heilsu. Þetta er líka heilbrigðis-þjónusta sem við höfum fengið.
  • Erfðafræðilegar upplýsingar: það eru upplýsingar um erfðir okkar og hvernig við erum. Til dæmis eitthvað um fötlun eða sjúkdóma sem við erum með.

Persónuvernd á að passa að farið sé eftir reglum og lögum um svona upplýsingar.

Ef þú hefur áhyggjur af því að það sé ekki verið að fylgja reglum um upplýsingar um fatlað fólk, sama hvort það er fullorðinn eða barn, er hægt að leita til Persónuverndar til að fá upplýsingar eða leiðbeiningar.

Sími 510 9600

Netfang: postur@personuvernd.is

 Vefsíða: https://www.personuvernd.is/