Akstursþjónusta fyrir fatlað fólk

Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga segir að sveitarfélög skuli tryggja að fatlað fólk eigi kost á  akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur, gegn viðráðanlegu gjaldi.

Markmið akstursþjónustu fyrir fatlað fólk er að gera þeim sem ekki geta vegna fötlunar nýtt sér almenningsfarartæki kleift að stunda atvinnu og nám og njóta félagslífs og tómstunda.

Jafnframt skal fatlað fólk eiga rétt á akstursþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar þjónustu sem það nýtur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald fyrir akstursþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir setja og skal gjaldið vera sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði.

Félagsþjónusta sveitarfélags þar sem fatlað fólk býr veitir því og aðstandendum þess upplýsingar og leiðbeiningar varðandi akstursþjónustuna á svæðinu.

AUÐLESIÐ

Akstursþjónusta fyrir fatlað fólk

Sveitarfélög eiga að bjóða fötluðu fólki akstursþjónustu, lögin segja það. Hún á að hjálpa fólki við að komast ferða sinna eins og það vill og þegar það vill, á gjaldi sem er eðlilegt.

Akstursþjónustan er fyrir fólk sem ekki getur nýtt almenningsfaratæki eins og til dæmis strætó, svo það geti farið til vinnu, sinnt námi, félagslífi og tómstundum.

Fatlað fólk á rétt á að fá akstur á þjónustu-stofnanir og til að nýta sér aðra þjónustu sem það á að fá vegna fötlunar sinnar.

Sveitarfélög mega rukka fyrir akstur samkvæmt gjaldskrá sem er ákveðin. Hún á að vera svipuð og fyrir almenningssamgöngur, eins og  til dæmis strætó og rútur.

Félagsþjónustan á að gefa fötluðu fólki og aðstandendum þeirra upplýsingar og leiðbeiningar um aksturinn.