EnglishPolishIcelandic

FAQs

Frequently asked questions

Frequently asked questions 

Dictionary

Icelandic words explained 

Selected Icelandic words explained in various languages. 

Flóttafólk á Íslandi

Hér er hægt að finna upplýsingar um flóttafólk á Íslandi, hvaða tegundir af dvalarleyfum eru gefin út og hver munurinn á þeim er. Einnig eru hér skýrslur og útgefið efni sem við koma málefnum flóttafólks á Íslandi.

Fjöldi útgefinna leyfa fyrir flóttafólk á árunum 2010 til 2020

Varðandi mismunandi tegundir dvalarleyfa fyrir flóttafólk

Samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, frá 1951, á orðið flóttamaður við hvern þann mann sem ,,af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands.”

 

Þegar talað er um flóttafólk í kröfulýsingu félagsmálaráðuneytisins er átt við fjóra hópa:

 

 1. Einstaklingar sem fengið hafa stöðu flóttamanns skv. 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
 2. Einstaklingar sem fengið hafa dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar við flóttamann sem hefur fengið stöðu skv. 37.gr.laga um útlendinga nr. 80/2016.
 3. Einstaklingar sem fengið hafa synjun um hæli en fengið dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
 4. Einstaklingar sem íslenska ríkið hefur boðið að setjast að á Íslandi í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, skv. 43. laga um útlendinga nr. 80/2016

 

Mikilvægt er að hafa í huga að:

 

 • Orðið flóttafólk er notað yfir alla þessa fjóra hópa, þótt einstaklingar sem fá leyfi af mannúðarástæðum séu í raun ekki með stöðu flóttamanna.
 • Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna sérstakra tengsla við landið fellur ekki hér undir.

 

Þetta þýðir að þeir sem sækja um vernd, er hafnað en veitt dvalarleyfi vegna ríkra mannúðarsjónarmiða hafa sömu réttindi og skyldur hvað varðar þá velferðarþjónustu sem veita skal flóttafólki samkvæmt leiðbeinandi reglunum og geta tekið þátt í samræmdri móttöku.

 

Þeir sem sækja um vernd, er hafnað en persónulegar aðstæður hafa breyst á meðan umsóknin var í ferli þannig að þeir fá veitt mannúðarleyfi á þeim forsendum að þeir giftust íslenskum ríkisborgara eða eignuðust barn með íslenskum ríkisborgara falla hins vegar ekki hér undir og eru því ekki skilgreindir sem flóttafólk.

 

Einstaklingar sem koma á eigin vegum til Íslands og óska formlega eftir því að fá veitta alþjóðlega vernd kallast umsækjendur um alþjóðlega vernd og hafa ákveðin réttindi á meðan umsókn þeirra er í vinnslu. Þeir eru ýmist í þjónustu Útlendingastofnunar, félagsmálayfirvalda í Hafnarfirði, Reykjanesbæ eða Reykjavík þar sem þeim er útvegaður dvalarstaður, framfærsla og annað í samræmi við þjónustusamninga við Útlendingastofnun. Rauði kross Íslands sinnir félagslegum stuðningi og hagsmunagæslu fyrir umsækjendur sem og réttaraðstoð og talsmannaþjónustu vegna meðferðar umsókna á stjórnsýslustigi.

 

Þar sem það tekur mislangan tíma að afgreiða umsóknir um alþjóðlega vernd þá er það misjafnt hversu lengi einstaklingar hafa búið á landinu þegar þeir fá stöðu flóttamanna, allt frá örfáum vikum upp í marga mánuði eða jafnvel ár. Einnig er það misjafnt hvaða þjónustu einstaklingar hafa verið að fá eftir því hvort viðkomandi hafa verið í þjónustu hjá Útlendingastofnun eða sveitarfélagi. Flestir hafa þó fengið einhverja íslensku- og eða enskukennslu, hafa náð að kynnast staðarháttum og börn á leik- og grunnskólaaldri hafið skólagöngu á Íslandi. 

 

Þegar umsækjendur um vernd fá stöðu flóttamanna hafa þeir tvær vikur til að yfirgefa dvalarstaðinn sem er ætlaður fyrir umsækjendur um vernd. Þeir sem þiggja að taka þátt í samræmdri móttöku geta dvalist í allt að sex vikur á viðkomandi dvalarstað

 

Í lögum um útlendinga kemur fram að alþjóðleg vernd er veitt einstaklingum:

 

 • sem uppfylla skilyrði alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna
 • á grundvelli reglna um viðbótarvernd
 • ríkisfangslausum einstaklingum

 

Þeir sem fá veitta alþjóðlega vernd eru skilgreindir sem flóttamenn og hafa eftirfarandi réttindi:

 

 • Fá útgefið dvalarleyfi til 4 ára.
 • Dvalarleyfið getur verið grundvöllur tímabundins dvalarleyfis.
 • Dvalarleyfi fylgir atvinnuleyfi óháð vinnuveitanda.
 • Eru sjúkratryggðir hjá Sjúkratryggingum Íslands frá því að dvalarleyfi er veitt og hafa sama rétt á heilbrigðisþjónustu og aðrir.
 • Sömu réttindi og skyldur og aðrir íbúar hvað varðar þjónustu sveitarfélaga.
 • Fá undanþágu frá þriggja ára búsetuskilyrðum hjá Tryggingastofnun ríkisins hvað varðar barnalífeyri, örorku og ellilífeyri. Framvísa þarf dvalarleyfisskírteini þegar umsókn er skilað inn.
 • Flóttamaður getur sótt um íslenskan ríkisborgararétt eftir að hafa átt lögheimili á Íslandi í 5 ár.
 • Geta sótt um fjölskyldusameiningu fyrir kjarnafjölskyldu sína.

 

Þeir einstaklingar og fjölskyldur sem fá veitta stöðu flóttamanna geta, skv. VIII. kafla í lögum um útlendinga nr. 80/2016, sótt um fjölskyldusameiningu fyrir nánustu aðstandendur. Til nánustu aðstandenda teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Upplýsingar um fjölskyldusameiningar við flóttamanna og eyðublöð vegna þessa má finna hér á heimasíðu Útlendingastofnunar.

 

 • Sýna þarf fram á framfærslu þegar sótt er um fyrir foreldra 67 ára og eldri
 • Sýna þarf fram á framfærslugetu þegar sótt er um fyrir maka ef stofnað var til hjónabands eftir að viðkomandi fékk veitta stöðu flóttamanns á Íslandi

 

Fái einstaklingur veitta alþjóðlega vernd vegna fjölskyldusameiningar við flóttamann fær hann sömu réttindi og skyldur og flóttamaðurinn sem hann sameinast hér á landi.

 

Rauði kross Íslands aðstoðar flóttafólk við undirbúning og vinnslu umsókna um fjölskyldusameiningar. Óskað er eftir viðtali með því að senda tölvupóst á netfangið tracing@redcross.is

Eins og áður hefur komið fram er í kröfulýsingunni er litið á þá einstaklinga sem fengið hafa synjun um alþjóðlega vernd en fengið dvalarleyfi á grundvelli ríkra mannúðarsjónarmiða sem flóttamenn. Þótt þessir aðilar hafi sömu réttindi og skyldur og flóttamenn hvað varðar þjónustu hjá sveitarfélagi þá gildir ekki slíkt hið sama hvað varðar önnur réttindi.

 

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða:

 • Dvalarleyfi af mannúðarástæðum er ekki veitt til lengri tíma en eins árs. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi í allt að tvö ár í senn.
 • Til að geta sótt um íslenskan ríkisborgararétt þarf fyrst að sækja um ótímabundið dvalarleyfi. Nauðsynlegt er að hfa haft samfellt dvalarlefyi í fjögur ár til að geta sótt um ótímabundið dvalarleyfi. Eftir fimm ár er hægt að sækja um ríkisborgararétt.
 • Dvalarleyfi af mannúðarástæðum veitir ekki rétt til atvinnuþátttöku. Sækja þarf sérstaklega um tímabundið atvinnuleyfi. Til að sækja um tímabundið atvinnuleyfi þarf að framvísa ráðningarsamningi.
 • Atvinnuþáttaka útlendings með tímabundið atvinnuleyfi er háð kennitölu atvinnurekanda sem þýðir að atvinnuleyfið gefur aðeins leyfi til atvinnuþátttöku hjá viðkomandi atvinnurekanda. Sækja þarf um nýtt atvinnuleyfi til að fá atvinnuleyfi á nýjum stað.
 • Tímabundið atvinnuleyfi er veitt í allt að eitt ár og þarf að endurnýja samhliða endurnýjun dvalarleyfis.
 • Hægt er að framlengja atvinnuleyfi um allt að tvö ár í senn.
 • Útlendingur með tímabundið atvinnuleyfi getur sótt um óbundið atvinnuleyfi hafi hann samfellt átt lögheimili á Íslandi í 3 ár.
 • Eru sjúkratryggðir hjá Sjúkratryggingum Íslands frá því að dvalarleyfi er veitt og hafa sama rétt á heilbrigðisþjónustu og aðrir.

 

 

 • Kvótaflóttafólk fær veitta alþjóðlega vernd.
 • Hafa sömu réttindi og skyldur og annað flóttafólk.

 

Þeir einstaklingar sem íslenska ríkið býður að setjast að hér á landi í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa þá sérstöðu að hafa ekki komið sjálfir til Íslands til að sækja um alþjóðlega vernd og hafa því enga sérstaka tengingu við landið. 

 

Flóttamannastofnun flokkar eftir atvikum það flóttafólk sem hefur þörf á því að flytja til þriðja lands og setur það á lista eftir forgangsröðun. Forgangsröðunin fer eftir þeirri þörf og hættu sem talin er vera fyrir hendi í hverju tilfelli fyrir sig. Flóttafólkinu er skipt í átta hópa eftir því hvað við á.:

 

 1. Þörf fyrir lagalega og líkamlega vernd.
 2. Þolendur ofbeldis og pyndinga.
 3. Þörf fyrir læknis- og heilbrigðisþjónustu.
 4. Konur í hættu.
 5. Fjölskyldusameining.
 6. Börn og unglingar.
 7. Aldraðir flóttamenn.
 8. Flóttamenn án aðlögunarmöguleika í öðru landi.

 

Á Íslandi hefur myndast hefð fyrir því að flóttamannanefnd, sem í sitja fulltrúar frá innanríkisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, velferðarráðuneytinu og Rauða krossinum, óski eftir ábendingum eða tillögum frá Flóttamannastofnun um hvaðan flóttamennirnir skuli koma. Flóttamannanefnd metur tillögurnar með tilliti til aðstæðna á Íslandi og leggur tillögu fyrir ríkisstjórn Íslands sem svo tekur endanlega ákvörðun.

 

Þegar búið er að taka ákvörðun um frá hvaða landi eða landsvæði hópurinn á að koma vinnur Flóttamannastofnun í viðkomandi landi ákveðið forval. Sendinefnd frá Íslandi fer yfir skýrslur þessara einstaklinga, tekur við þá viðtöl og velur þannig úr þá einstaklinga sem í kjölfarið er boðið til landsins.

 

 • Flóttafólk og þeir sem eru með mannúðarleyfi geta sótt um greiðslur frá Tryggingastofnun á sama hátt og aðrir sem eru með lögheimili á Íslandi.
 • Tryggingastofnun gerir undanþágu frá þriggja ára búsetureglu fyrir þá sem eru með alþjóðlega vernd en ekki þá sem eru með mannúðarleyfi. Þeir sem njóta hér alþjóðlegrar verndar þurfa því ekki að uppfylla skilyrðin um þriggja ára búseturegluna. Þeir eru í sömu stöðu og aðrir sem hafa alltaf búið hér á landi og eiga því rétt strax varðandi allar bætur frá Tryggingastofnun. Skila þarf inn afriti af dvalarleyfisskírteini með umsókn.
 • Ef flóttafólk getur ekki framvísað gögnum sem sýna fram á feðrun/mæðrun eða að faðir/móðir sé látinn er hægt að skila inn skýrslu frá Útlendingastofnun, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eða staðfestingu frá félagsmálaráðuneytinu þar sem getið er um afdrif foreldris. Tryggingastofnun metur upplýsingarnar og tekur ákvörðun um veitingu barnalífeyris eða mæðra/feðralauna. 
 • Ef vafaatriði eru um einstaka mál má senda fyrispurn á fjolskyldumal@tr.is.

 

Privacy Settings
We use cookies to enhance your experience while using our website. If you are using our Services via a browser you can restrict, block or remove cookies through your web browser settings. We also use content and scripts from third parties that may use tracking technologies. You can selectively provide your consent below to allow such third party embeds. For complete information about the cookies we use, data we collect and how we process them, please check our Privacy Policy