Aðalmunurinn á búsetuleyfi og öðrum leyfum er sá að búsetuleyfi er ótímabundið leyfi. Það þýðir að ef umsækjandi fær útgefið búsetuleyfi þarf hann ekki að sækja um framlengingu á leyfinu eins og þarf að gera með dvalarleyfi. Jafnframt geta handhafar búsetuleyfa fengið ótímabundið atvinnuleyfi og er atvinnuleyfi þeirra þar af leiðandi ekki bundið ákveðnum atvinnurekenda.
Útlendingastofnun sér um veitingu búsetuleyfa. Umsækjandi um búsetuleyfi þarf að skila inn umsókn til Útlendingastofnunar að minnsta kosti mánuði áður en eldra leyfi hans rennur út. Hafa ber í huga að ef handhafi búsetuleyfis fer af landi brott, og dvelur samfellt í 18 mánuði eða lengur erlendis, þá fellur búsetuleyfi hans niður.

Áætlaður afgreiðslutími umsókna um búsetuleyfi er 90 dagar eftir að fullnægjandi gögn hafa borist.

Skilyrði búsetuleyfis
 • Umsækjandi verður að hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga (sjá nánar á vef Útlendingastofnunar)
 • Ekki mega liggja fyrir ástæður sem geta valdið brottvísun
 • Trygg framfærsla
 • Umsækjandi verður að hafa haft dvalarleyfi á sama grundvelli síðustu fjögur ár áður en umsókn um búsetuleyfi er lögð fram og skilyrði þess leyfis vera enn uppfyllt (athuga þarf að ekki telja allar tegundir dvalarleyfa upp í búsetuleyfi, (sjá nánar á vef Útlendingastofnunar))
 • Umsækjandi má ekki eiga ólokið mál í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.
 • Umsækjandi verður að mæta í eigin persónu í myndatöku til Útlendingastofnunar eða sýslumannsembætta þegar lögð er fram umsókn um búsetuleyfi.
Gögn sem þurfa að fylgja umsókn
 1. Umsókn um búsetuleyfi – vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda (í frumriti)
 2. Ljósrit úr vegabréfi/ferðaskilríki – mikilvægt er að vegabréf sé ekki útrunnið
 3. Staðfest afrit af skattaframtölum síðustu fjögurra ára
 4. Vottorð (í frumriti) um að umsækjandi hafi lokið námskeiði í íslensku eða vottorð (í frumriti) sem staðfestir kunnáttu hans í íslensku
 5. Ráðningarsamningur (ef sótt er um óbundið atvinnuleyfi)
 6. Launaseðlar síðustu þriggja mánaða/staðfesting á framfærslu
 7. Vottorð frá sveitarfélagi varðandi framfærslustyrk síðastliðin fjögur ár

Þegar afgreiðslu umsóknar er lokið fær umsækjandi skriflega tilkynningu þar um.

Fjölmenningarsetur
Túlkun
Ísland
Stjórnsýsla
Fjármál
Atvinna
Fjölskylda
Húsnæði
Menntun
Heilsa
112
Bílar