Velkomin til Íslands, hér er gott að búa. Á Íslandi býr fólk af ýmsum uppruna í sátt og samlyndi. Hér fyrir neðan er ýmislegt um land og þjóð sem gott er að vita.

Ísland í Hnotskurn
Ísland er stærsta eyja Evrópu og liggur í Norður-Atlandshafi. Hún er 103.000 ferkílómetrar og þar eru um 200 eldfjöll af ýmsum gerðum. Um 75% landsins eru í meira en 200 metra hæð og stór hluti er gróðurlítil háslétta með stöku fjöllum og fjallgörðum. Jöklar þekja samtals um 11.900 ferkílómetra en ræktað land aðeins 1.400 ferkílómetra. Gróið land þekur 23.805 ferkílómetra. Höfuðborg Íslands er Reykjavík og opinbert tungumál er íslenska.

Í byrjun árs 2017 voru rúmlega 338.000 íbúar á Íslandi en Í byrjun 17. aldar bjuggu hér rúmlega 50.000 einstaklingar og dreifðist mannfjöldinn mun víðar um landið en í dag. Í ársbyrjun 2010 var hlutfall innflytjenda af heildarmannfjölda á Íslandi 6,8% sem þíðir að rúmlega 21.700 einstaklinga voru skráðir á Íslandi með erlent ríkisfang. Árið 1950 var fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi tæplega 2.700 af 141.000 íbúum landsins eða 2% af heildarmannfjölda.

Sjávarhiti sunnanlands og við sunnanvert Vesturland er um 10°C á sumrin en 5°C á veturna. Norðan- og austanlands er sjávarhitinn um 5°C á sumrin en um 1° C á veturna. Vegna nokkuð stöðugs sjávarhita verður ekki mikill munur á lofthita á veturna og sumrin.

Veðrátta
Helsta einkenni veðráttunnar er hversu breytileg hún er. 
Meðalárshiti í Reykjavík er einungis um 5°C og er meðalhitinn -0,4° C í janúar og 11,2°C í júlí. Lægsta hitastig á landinu á 20. öld mældist -37° C í janúar 1918 á Grímsstöðum. Hæsta hitastig sem mældist á 20. öld voru rúmlega 30°C árið 1939. Það rignir mikið, einkum á sunnanverðu landinu, en sjaldan lengi í einu. Oft er mjög vindasamt og rigning og snjór falla sjaldan beint niður heldur koma lárétt, eða eins og vindurinn blæs. Vindurinn getur magnað kuldaáhrifin því að -5° C frost í miklum vindi getur virkað eins og -20° C til -30° C í logni.

Lög og reglur
Samkvæmt íslensku stjórnarskránni skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Íslenska lögreglan er ríkislögregla og er innanríkisráðherra yfirmaður allrar löggæslu í landinu. Dómstigin eru tvö, héraðsdómstólar og hæstiréttur.

Lög og reglur eru ekki nákvæmlega eins í neinu ríki og því er mikilvægt að kynna sér lög í nýju landi. Upplýsingavefurinn www.island.is inniheldur viðamiklar upplýsingar á íslensku og ensku, á vef Alþingis (www.althingi.is) má finna íslenska lagasafnið og á vef Stjórnarráðsins má finna lög og reglugerðir sem þýddar hafa verið yfir á ensku (www.stjornarrad.is / www.government.is).

Á Íslandi gilda sérstök lög er varða réttindi barna. Öllum ber skylda til að láta vita í síma 112 ef grunur leikur á að börn séu beitt líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu ofbeldi. 

Sjálfræðisaldur er 18 ár á Íslandi. Þá fær einstaklingur lögræði, það er fjárræði og sjálfræði, ásamt því að hann öðlast kosningarrétt. Bílpróf er hægt að taka daginn sem einstaklingur verður 17 ára en leyfi til að kaupa áfengi miðast við 20 ár.

Allir sem eru 18 ára og eldri mega ganga í hjúskap og skrá sig í sambúð[1], einnig einstaklingar af sama kyni. Hægt er að fá skilnað þótt makinn vilji það ekki. Við skilnað er eignum og skuldum venjulega skipt til helminga á milli hjóna nema samningur hafi verið gerður um annað.

Samkvæmt lögum er forsjá yfir börnum sameiginleg við skilnað og sambúðarslit nema annað sé ákveðið. Foreldrar þurfa að ákveða hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili og þar með hafa, að jafnaði, fasta búsetu. Sýslumaður getur úrskurðað um ágreining varðandi umgengnisrétt en ef ágreiningur er um forsjá þarf að vísa honum til dómstóla. Ef foreldri sem fer eitt með forsjá gengur í hjúskap þá er forsjá barns einnig hjá stjúpforeldrinu. Taki það aftur á móti upp sambúð verður forsjáin einnig hjá sambúðarforeldrinu eftir að sambúðin hefur verið skráð samfleytt í eitt ár í þjóðskrá.

Hraðakstur og akstur undir áhrifum áfengis er litinn alvarlegum augum og eru refsingar háar fjársektir, ökuleyfissvipting og varðhald við ítrekuð brot. Sektir geta einnig haft áhrif á veitingu íslensks ríkisborgararéttar.

 • Höfuðborgin er Reykjavík
 • Opinbert tungumál er íslenska
 • Gjaldmiðillinn er íslensk króna (ISK)
 • Tímabelti: UTC + 0 (enginn sumartími)
 • Landslén: .is
 • Landsnúmer: +354
 • Íbúafjöldi 2017: 338.000
 • Þjóðsöngur: Lofsöngur
 • Stjórnarfar: Lýðveldi með þingbundinni stjórn
 • Forseti: Guðni Th. Jóhannesson
 • Forsætisráðherra: Katrín Jakobsdóttir
 • Stjórnsýsla: Ríki og sveitarfélög
 • Sveitarfélög: 74
 • Ísland er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), aðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og Norðurlandaráði.
 • Ísland var hluti af danska konungsveldinu og fékk ekki fullt sjálfstæði fyrr en það varð lýðveldi þann 17. júní 1944. Árið 1904 fékk Ísland heimastjórn og 1918 hlaut það fullveldi. Áður en Ísland laut stjórn Danmerkur var það hluti af norska konungsveldinu.