Flutningur lögheimilis

Upplýsingar fyrir þá sem flytja innanlands

 • Þegar flutt er úr einu húsnæði í annað, milli sveitarfélaga eða landshluta, skal samkvæmt lögum tilkynna um flutninginn innan sjö daga.
 • Nýtt lögheimili er skráð með því að fylla út eyðublaðið ‘Flutningstilkynning innanlands' og skila því til Þjóðskrár Íslands, á skrifstofu viðkomandi sveitarfélags eða sýslumannsembætta á landsbyggðinni. Í skjalinu sjálfu er hægt að velja hvort skila eigi flutningstilkynningunni rafrænt eða ekki. 
 • Hægt er að skila eyðublaðinu rafrænt til Þjóðskrár Íslands en þá þarf ekki að undirrita skjalið. Ef eyðublaði er skilað rafrænt þarf viðkomandi að nota veflykil Ríkisskattstjóra til að skrá sig inn á þar til gert svæði. Veflykillinn kemur þá í stað undirritunar.
 • Einnig er hægt að fylla eyðublaðið beint út á skjánum en skrifa verður undir það og skila útprentaðu eintaki til fyrrgreindra aðila, með pósti, senda sem símbréf (fax) eða með því að mæta á staðinn.

Minnislisti vegna flutninga:

 • Tilkynna nýtt heimilisfang til Íslandspósts.
 • Hægt er að flytja heimasímanúmer með sér hvert á land sem er. Nánari upplýsingar fást í þjónustuverum og á vefjum símafyrirtækja.
 • Lesa af orkumælum, rafmagns-, heita- og kaldavatnsmælum. Hægt er að skrá aflestur af mælum og tilkynna notendaskipti, rafrænt á vefjum nokkurra orkufyrirtækja, annars skal hafa samband við skrifstofur þeirra og panta aflestur og tilkynna notandaskipti.
 • Ef börn og unglingar skipta um leik- og/eða grunnskóla þarf að tilkynna flutning til gamla skólans og sækja um í nýjum skóla.
 • Kynna sér hvaða heilsugæsla eða heilbrigðisstofnun starfar á því svæði sem flutt er til. Tilkynna sig og sína og sækja um heimilislækni.
 • Undir ‘Sveitarfélagið mitt' má nálgast upplýsingar um sveitarfélagið sem flutt er til og tengil inn á heimasíðu sveitarfélagsins.
 • Hjá þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar má finna upplýsingar um störf í boði, starfsnámskeið og atvinnuleysisskráningu.

Tilkynning um breytingu á heimilisfangi hjá ÍslandspóstiTil baka, Senda grein, Prenta greinina