Nemendur við Myndlistaskólann í Reykjavík gera hreyfi- og stuttmyndir fyrir blinda og sjónskerta - samstarfsverkefni milli Íslands og Póllands

14.11.2014 Fréttir

Dagana 17. til 21. nóvember verða haldnar tvær smiðjur í Myndlistaskólanum í Reykjavík þar sem unnar verða hreyfi- og stuttmyndir sem taka mið af þörfum blindra og sjónskertra þátttakenda og áhorfenda. Önnur smiðjan er fyrir börn og ungmenni á aldrinum 8-18 ára, blind, sjónskert og sjáandi, en í hinni taka þátt nemendur Sjónlistadeildar – listnámsbrautar til stúdentsprófs. Smiðjurnar eru hluti af þriggja ára samstarfsverkefni milli Póllands og Íslands sem miðar að því að gera kvikmyndir, leikhús og myndlistarsýningar aðgengilegar fyrir blinda og sjónskertra.

 

Námskeið fyrir börn og ungmenni á aldrinum 8-18 ára er leitt af pólska kvikmyndaleikstjóranum Aniela Lubienicka en ásamt henni kenna þær Elsa D. Gísladóttir og Margrét M. Norðdahl. Námskeiðið er ætlað bæði íslensku- og pólskumælandi börnum og ungmennum. Afraksturinn verður sýndur laugardaginn 6. desember kl. 12:00 í Bíó Paradís.

 

Í hinum hluta verkefnisins munu nemendur við Sjónlistadeild Myndlistaskólans í Reykjavík vinna að gerð stuttmynda ásamt hópi af blindum pólskum listamönnum. Myndirnar verða teknar upp í Reykjavík og Wroclaw í vetur. Til að gera stuttmyndirnar aðgengilegar fyrir blinda og sjónskerta verður lögð áhersla á tjáningu í gegnum hljóð og sérstök hljóðrás gerð með lýsingum á því sem fyrir augu ber (sjónlýsingu). 

 

Samstarfsverkefnið sem er leitt af menningarmiðstöðinni Centrum Kultury Wroclaw-Zachód hófst árið 2013. Í tengslum við það hafa verið haldnar myndlistarsýningar, leiksýningar og kvikmyndasýningar með sjónlýsingum á vegum Bíó Paradís, Gaflaraleikhússins, Listar án landamæra og Myndlistaskólans í Reykjavík, í samstarfi við pólska sendiráðið og Blindravinafélag Íslands. Verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði EFTA og pólskum verkefnasjóðum.  

Senda grein