Nú styttist í sveitarstjórnarkosningar

13.5.2014 Fréttir

Tilkynning frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Sveitarstjórnarkosningar fara fram 31. maí næstkomandi og verða þá kjörnir fulltrúar til setu í sveitarstjórnum um allt land. Sveitarfélögin eru 74 talsins en í nokkrum þeirra er sjálfkjörið í sveitarstjórn þar sem aðeins einn listi er í boði.

Á undanförnum áratugum hefur kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum farið minnkandi. Kosningaþátttaka í kosningum 2010 var sú lægsta í 40 ár eða 73,5% og lækkaði um 5,2 %-stig frá kosningunum 2006. Á tímabilinu 1970 til 2010 var kosningaþátttaka mest árið 1974 eða 87,8%. Kosningaþátttaka 2010 var því 14,3 %-stigum lægri en árið 1974.

Í öðrum norrænum ríkjum hefur sama þróun átt sér stað – sífellt færri nýta sér kosningarréttinn. Þar hefur kosningaþátttakan einnig verið greind niður á aldurhópa og eftir uppruna. Þannig hefur komið í ljós að yngri kjósendur og innflytjendur hafa síður nýtt sér kosningarréttinn en þeir sem eldri eru eða þeir sem eru innfæddir.

Slík greining á kosningaþátttöku hefur ekki farið fram hér á landi. Þess vegna er ekki hægt að fullyrða með neinni vissu að yngri kjósendur séu ekki að nýta sér kosningarréttinn, en samt má ætla að sama þróun sé hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur því látið gera myndbönd til þess að vekja athygli á komandi sveitarstjórnarkosningum og eiga þau að höfða sérstaklega til ungs fólks, þar sem fólk er hvatt til þess að taka þátt í kosningunum og hafa þar með áhrif á hverjir stýra sveitarfélögunum á kjörtímabilinu 2014–2018. Myndböndin eru með íslenskum, enskum og pólskum undirtexta.

Myndböndin voru unnin í samstarfi við Tjarnargötuna ehf. og eru birt á samfélagsmiðlum, t.d. YouTube  og Facebook.

Senda grein