Erlendum ríkisborgurum á Íslandi farið að fjölga á ný

17.1.2013 Fréttir

Samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands er erlendum ríkisborgurum á Íslandi farið að fjölga á nýjan leik. Síðastliðin þrjú ár hefur erlendum ríkisborgurum fækkað en í byrjun árs 2009 voru tæplega 24.400 erlendir ríkisborgarar búsettir á landinu, og höfðu þá aldrei fleiri einstaklingar með erlent ríkisfang verið til heimilis á Íslandi. Árin þar á eftir, 2010, 2011 og 2012 (miðað við 1. janúar ár hvert) fækkaði þeim jafnt og þétt og var fjöldi erlendra ríkisborgara komin niður í tæplega 21 þúsund einstaklinga í byrjun árs 2012. Á síðasta ársfjórðungi 2012 fluttu 620 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en frá því og fjöldi þeirra óx, eins og áður sagði, í fyrsta sinn í þrjú ár. Tæplega 21.500 einstaklingar með erlent ríkisfang voru þá búsettir hér á landi.

Senda grein