Faldar greinar

Skólakerfið á Íslandi

Dagforeldrar

Dagforeldrar annast gæslu barna í heimahúsum. Starfstími er virka daga og er dvalartími barna mismunandi en aldrei lengri en 9 klukkustundir í senn. Flest börn í gæslu hjá dagforeldrum eru á aldrinum eins til þriggja ára, þó geta yngri eða eldri börn verið í gæslu hjá dagforeldrum. Dagforeldrar eru sjálfstætt starfandi og ákvarða yfirleitt sína gjaldskrá sjálfir en borga þarf fyrir dvöl hjá dagforeldri. Hægt er að fá upplýsingar um dagforeldra hjá viðkomandi sveitarfélagi.

Leikskóli

Leikskólar eru fyrir börn allt frá 12 mánaða aldri til 6 ára aldurs, mismunandi eftir leikskólum og sveitarfélögum, og hafa foreldrar frjálst val um það hvort börnin fari í leikskóla eða ekki. Langflest börn fara í leikskóla og ráðlegt er að börn innflytjenda geri það líka því það hjálpar þeim að læra íslensku. Borga þarf fyrir leikskóladvöl og er sótt um hana hjá viðkomandi sveitarfélagi. Til að barnið komist sem fyrst á biðlista áður en það nær leikskólaaldri er ráðlegt að sækja um leikskólapláss svo fljótt sem kostur er.

Grunnskóli

Það er skylda að senda öll börn á aldrinum 6-16 ára í grunnskóla og er námið ókeypis. Í mörgum sveitarfélögum geta börn farið á frístundaheimili eða í heilsdagsskóla eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur. Greiða þarf fyrir slíka þjónustu. Mismunandi er eftir sveitarfélögum hvar hægt er að skrá börn í skóla. Hægt er að fá upplýsingar um það hjá þjónustumiðstöðvum í Reykjavík eða bæjarskrifstofum í viðkomandi sveitarfélagi.

Framhaldsskóli

Allir sem hafa lokið grunnskóla á Íslandi eða sambærilegu námi erlendis geta farið í framhaldsskóla. Nám í framhaldsskólum tekur yfirleitt 4 ár. Borga þarf skólagjöld í framhaldsskóla á Íslandi en þau eru mismunandi eftir skólum. Nánari upplýsingar um framhaldsskóla er hægt að finna á vefnum www.menntamalaraduneyti.is/stofnanir.

Háskóli

Nemendur sem hefja nám í háskóla þurfa að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi. Átta skólar bjóða upp á menntun til háskólagráðu. Borga þarf skrásetningar- eða skólagjöld í háskóla á Íslandi en þau eru mismunandi eftir skólum. Nánari upplýsingar um háskóla er hægt að finna á vefnum www.menntamalaraduneyti.is/stofnanir.Til baka, Senda grein, Prenta greinina